5
Í starfi sínu tekst arkitektinn á við ótal áskoranir er varða búsetu, rými og hreyfingu, sem ber að nálgast af næmni og virðingu. Hið manngerða umhverfi mótar allt líf sem því tengist og því skal framkvæma af nærgætni, fagmennsku og ábyrgð. Teymið samanstendur af fjölbreyttum hópi arkitekta með marga og ólíka styrkleika, en með eitt og sama markmið; að skapa arkitektúr þar sem hugmyndaauðgi, metnaður, gæði, virðing fyrir náttúru og nýsköpun mynda órjúfanlega heild.
Hönnunarforsendur taka mið af þeim möguleikum og tækifærum sem sérhvert verkefni býr yfir. Þarfir notenda og staðhættir eru höfð að leiðarljósi og þarafleiðandi verður hvert verkefni staðbundið og sérstakt. Sérstaðan fæst sökum þess að verkefnið byggir í hvert sinn á stað, stund, þörf, ósk og fjárhagslegri getu þess sem framkvæmir. Til að tryggja sem farsælasta lausn er sameiginlegur skilningur allra hlutaðeigandi nauðsynlegur. Náin samvinna við viðskiptavininn er ávallt lögð til grundvallar, auk þess sem gott og frjótt þverfaglegt samstarf er lykilatriði. Það er trú okkar hjá Tvíhorf arkitektum að virkt samtal og samspil þeirra aðila sem koma að verkefninu styðji og styrki endanlega útkomu.
Í stærri verkefnum koma margir ólíkir verkþættir saman sem krefjast samvinnu og sérfræðiþekkingar. Í gegnum fjölmörg verkefni hafa myndast dýrmæt sambönd við fólk sem við treystum og leitum sjálf til í daglegum störfum. Þar reynir á þverfaglegt samstarf sem byggir á gagnkvæmum skilningi og faglegu trausti sem skilar sér í góðu verkflæði og hágæðalausnum.
Gunnar hugsar út fyrir kassann og er óþreytandi í leit sinni að óhefðbundnum og ferskum nálgunum að öllum verkefnum. Hann er flinkur að skissa og teikna og er þeim einstaka hæfileika gæddur að gera deiliteikningar fallegar. Hann er með eindæmum vel að sér um strauma og stefnur í arkitektúr, enda fylgist hann vel með á öllum miðlum. Gunnar er mannglöggur, geðgóður, litaglaður og þolinmóður. Hann gegnir stöðu sem sérlegur kvikmyndarýnir og matargagnrýnandi á stofunni. Gunnar lærði í Arkitektaskólanum í Árósum og lauk þaðan meistaraprófi vorið 2008.
Helgi Steinar er gæddur góðri rýmisgreind og hárfínni nákvæmni. Hann er öfundsverður af skipulagshæfileikum sínum, samskiptahæfni og yfirsýn. Honum tekst einhvernveginn alltaf að detta niður á sniðugar lausnir sem eru hagkvæmar og skapandi í senn. Hann er snöggur að öllu og mikill "multitasker" - en hann gæti hugsanlega haldið uppi hundrað boltum í einu og sjarmerað frænku þína í leiðinni. Hann er kraftmikill og drífandi maður sem kemur eflaust fleiru í verk en flestir. Helgi lærði arkitektúr við Arkitektaskólann í Árósum og lauk þaðan meistaraprófi í upphafi árs 2009.
Breanna er gríðarlegur reynslubolti í faginu enda hefur hún starfað úti um allan heim, allt frá New York til Dubai. Hún hefur unnið fyrir stofur á borð við RAA og fyrir viðskiptavini á borð við Prada. Ekkert verkefni virðist of stórt eða flókið fyrir hana og hún kemur sífellt með nýja, kreatíva vinkla inn í verkefnin. En svo er hún Breanna líka bara svo skemmtileg. Hún mætir á alla viðburði í faginu, kann kokteillista allra flottustu staðanna utan að og er snilldarkokkur - og um leið uppflettiorðabók okkar hinna um allt frá marineringum til hægeldunar. Breanna lauk BS-gráðu frá Ball State University í Indiana og meistaragráðu frá hinni virtu stofnun Pratt í New York.
Karitas, eða Kaja eins og hún er vanalega kölluð, er í senn listræn og greinandi og þeir eiginleikar gera henni kleift að sjá marga möguleika í hverju verkefni án þess að missa yfirsýn. Henni tekst að skapa arkitektónískar upplifanir í hverjum krók og kima sökum næmrar tilfinningar hennar fyrir samspili ljóss og skugga, efnis og áferða. Það er ekki til í hennar orðaforða að kasta til hendinni. Kaja lærði arkitektúr við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannahöfn og lauk þaðan meistaraprófi vorið 2010.
Katla er einstök blanda af lista- og vísindamanni. Hún hefur frábært auga fyrir samsetningum, efnum og grátónum. Hún er mjög fær í að útfæra tæknileg atriði og fá furðulegustu hluti framleidda. Katla "gúgglar" eins og vindurinn og hendir upp kynningarskjölum eins og ekkert sé á meðan hellt er upp á kaffi. Hún er mikill tæknispekúlant og er öflug í að kynna helstu nýjungar á hinum ýmsu sviðum fyrir okkur hinum. Katla lærði arkitektúr í Listaháskóla Íslands og KTH í Stokkhólmi og lauk þaðan meistaraprófi vorið 2014.
Fjölbýlishús að Álalind 14 í nýju Glaðheimahverfi Kópavogs. Við hönnun íbúðanna var lögð áhersla á að skapa björt og opin alrými fyrir samverustundir fjölskyldunnar. Leitast var við að fullnýta hvern fermetra með vel hugsuðum lausnum. Gluggar eru stórir og haganlega staðsettir með tillliti til útsýnis og dagsbirtu. Allar íbúðir eru búnar rúmgóðum svölum í suðlægar áttir. Uppbrot í lögun svalanna myndar skemmtilega hreyfingu í formgerð og útliti. Sambland hlýlegs viðar og endingargóðrar málmklæðningar ljáir byggingunni nútímalegan og vandaðan blæ. Byggingaraðili: ÁF hús og Leigugarðar fasteignafélag
Lynggata 2-4 er vandað fjöleignahús í einu af fallegustu íbúðahverfum Höfuðborgarsvæðisins Urriðaholti. Í lynggróun landslagi standa nýbyggingar þétt og mynda ramma utan um líf íbúanna. Vinkilform byggingarinnar ásamt markvissu efnisvali í klæðningum veitir hlýtt og heimilislegt yfirbragð. Það býður bæði íbúa og gesti velkomna að húsinu. Uppbrot í húshliðum sem snúa að götu og útvistarsvæði gefur tilfinningu um borgarlegan skala og hjálpar til við að skapa sterka götumynd. Við hönnun byggingarinnar var lögð áhersla á fjölbreyttar íbúðagerðir með ólíku fyrirkomulagi og stærðum til þess að mæta sem breiðustum íbúahópi. Íbúðirnar eru 2. til 4. herbergja og er í sumum þeirra hægt að stúka af auka herbergi í takt við stækkandi fjölskyldur. Byggingaraðili: Gerð ehf. Nánari upplýsingar á sölusíðunni: www.gerd.is.
Á besta stað á Kársnesinu rís fjölbýlishús með 86 íbúðum af fjölbreyttum stærðum og gerðum. Í formi minnir húsið á fjörugrjót þar sem það stendur á sjávarlóð með útsýni yfir Fossvoginn. Við hönnun byggingarinnar var markmið að skapa hlýlegar og vel skipulagðar íbúðir sem allar myndu bjóða upp á útsýni yfir voginn. Gólfsíðir, útbyggðir gluggar gera dagstofurými sérlega björt og glæsileg. Byggingaraðili: ÁF Hús. Nánari upplýsingar um hverfið á síðunni: www.karsnes.is.
Neðst í hlíðum Helgafells í Mosfellsbæ er falleg lóð með miklu útsýni yfir Varmárdalinn, Faxaflóa og Esjuna. Hér höfum við hannað einbýlishús á tveimur hæðum í þónokkrum landhalla. Húsið er hugsað eins og þorp í því að það er myndað af mörgum misstórum byggingarhlutum sem standa ofan á þungum grunni sem gengur út úr brekkunni. Myndefni er úr hönnunarferlinu.
Dýjagata 12 er einbýlishús á tveimur hæðum. Einföld form einkenna húsið en mynda á sama tíma yfirvegað útlit. Það stendur í halla og er lokað á móti götunni en opnast upp á móti fallegu útsýninu yfir Urriðavatn. Mismunandi klæddir byggingarhlutar sameinast utan um skemmtilegt skipulag og birta læðist inn á fallegum stöðum. Myndefni er úr hönnunarferlinu.
Orka til framtíðar er gagnvirk orkusýning sem opnaði í Ljósafossstöð sumarið 2015. Gestir eru leiddir inn í heim raforkunnar í gegn um fræðslu og leik; með því að ýta, snerta, toga og spila. Stöðvarhúsið var upphaflega hannað af Sigurði Guðmundssyni arkitekt og tekið í notkun árið 1937. Sýningarsalurinn á 2. hæð byggingarinnar var endurgerður í takt við sýninguna. Rýmið er bjart og opið, allir innanhússmunir og innréttingar bera merki um gæði í efnisvali og tæknilausnum. Sýningin er aðgengileg öllum, höfðar til allra aldurshópa og fólks með ólíkan bakgrunn. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Gagarín.
Gunnar Árnason óskaði eftir húsi sem átti að hýsa hann sjálfan, fullkomið Dolby upptökuver með auka stúdíói og lestrarklefa auk verkstæðis og gestahúss. Þetta átti að vera einfalt, hrátt og æðislegt.
Frá árinu 2011 höfum við annast sýningarhönnun lyfjafyrirtækisins Alvogen á árlegri heimssýningu lyfjafyrirtækja sem nefnist CPhI worldwide. Árið 2016 endurhönnuðum við sýningarbásinn frá grunni. Hugmyndafræðin að baki hans byggir sem fyrr á því að öllum hlutum megi pakka saman og setja upp að nýju á næstu sýningu. Það kallaði á mikla og skemmtilega vinnu við hönnun sérsmíðaðra húsgagna í góðu og gefandi samstarfi við Alvogen-teymið. Í útliti spila saman dökk og mött efni í gólfi og innréttingum saman við bjartan og mjúkan loftastrúktúrinn. Básinn sker sig úr frá öðrum básum á sýningunni enda endingargóð og náttúrleg efni í forgrunni. Veggmyndir við inngang teiknaði Pétur Stefánsson.
Heilsárshús í landi Hálsar í Kjós. Lóðin snýr til suðurs, með fagurt útsýni yfir sveitina og út Hvalfjörðinn enda stendur húsið hátt í fjallshlíðinni og þaðan er víðsýnt til allra átta. Húsið er að upplagi timburbygging sem skiptist í tvær álmur sem tengjast með steyptum húsgangi í anda gömlu landnámsbæjanna. Að utan er húsið klætt með íslensku greni sem er harðviður og fær að veðrast meðhöndlað á fallegan hátt .
Tvíhorf arkitektar í samstarfi við Gagarin og H2E hnepptu annað sætið í alþjóðlegri samkeppni um safn um glæpi kommúnismans í Patarei virkinu í Tallin, Eistlandi. Safnið er hýst í 5000 fermetra virki sem var byggt á 19. öld fyrir tilstilli Nikulásar I Rússakeisara og hefur í gegnum tíðina hýst fanga og stjórnarandstæðinga hvers tímabil fyrir sig. Þarna hafa meðal annars frelsisbaráttufólk, kommúnistar og nasistar verið fangelsaðir. Andrúmsloftið á staðnum er þrúgandi og sagan allt að því áþreifanleg. Nánari upplýsingar um safnið á vefsíðu þeirra: www.redterrormuseum.com.
Tímarnir breytast og innréttingarnar með. Hér var gamalt eldhús og baðherbergi endurhugsað, uppgert og fært til nútímans.
Á þetta fallega baðherbergi, sem við hönnuðum fyrir fjölskyldu í Hafnarfirði, notuðum við hvítt Corian bæði á vaskaborðið með innfelldri Corian-handlaug og ofan á baðkarið sem er undirlímt. Tærleikinn í efninu er gott mótvægi við hlýlega eikina sem notuð var í innréttingar og klæðningar ásamt hinum hlýja, græna lit á veggjunum. Flísum var haldið í lágmarki en aðeins gólf og sturturýmið er flísalagt með grábrúnum flísum og samlitri epoxý-fúgu.
Byggingaverktakinn Þingvangur ehf vildi leggja sitt lóð á vogarskálarnar í umræðuna um breytingar á byggingarreglugerð. Þeir óskuðu eftir því að við rannsökuðum hugtakið smáíbúðir og athuguðum möguleika þeirra og tækifæri.
Á horni Bergþórugötu og Vitastígs í Reykjavík stendur steinsteypt íbúðahús sem Sigurður Guðmundsson arkitekt teiknaði árið 1926. Deiliskipulag gerði ráð fyrir viðbyggingu tveggja hæða á kjallara með risi og hefðubundu valmaþaki á óbyggðum 100 m2 byggingarreit. Einnig skilyrt að nýbyggining skyldi taka mið af útliti gamla hússins. Það er kúnst að tvinna saman gömlu og nýju og lögðum við okkur fram um að hanna byggingu sem myndi sóma sér í nærumhverfi sínu en uppfyllti að sama skapi kröfur nútímans. Þremur nýjum íbúðum var komið fyrir á jafn mörgum hæðum en til þess að fá sem besta nýtingu út úr risthæðinni var brugðið á það ráð að stall hæðirnar til þess að fá meiri lofthæð undir valmanum. Þannig er komið inn í nýjar íbúðir frá eldra stigahúsi en í miðjum íbúðunum lækkar gólfið um hálfa hæð sem býr til spennandi flæði innan íbúðarinnar. Mikið og fallegt útsýni er yfir miðborgina og út á Faxaflóann.
Sendu okkur endilega skilaboð eða hringdu í okkur. Einnig er heitt á könnunni og við erum alltaf til í spjall ef þú vilt kíkja við.